25 June 2007

Bloggþurrð á enda ... vonandi - Leikurinn gegn GRV

Ég vill byrja á því að biðjast afsökunar á uppfærslunum á þessari síðu upp á síðkastið, en tímaskortur hefur hrjáð mig mjög illa sl. 2-3 vikur. Vonandi er það ástand afstaðið.

En á fimmtudaginn sl. kom GRV (sameinað lið Grindavíkur, Reynis Sandgerðis og Víðir úr Garði) með lið sitt í heimsókn á Ásvelli. Aðstæður voru eins og best gerist á íslenskum mælikvarða; heiðskírt, hiti, smá gola, og besti gervigrasvöllur í heimi. Það var þó ekki nógu góð ástæða fyrir alla til að mæta í leikinn og einhverra hluta vegna létu bara 13 stelpur sjá sig (!!), þjálfararnum til mikils ama. Leikirnir enduðu þannig að A-liðið tapaði 1-5 á meðan B-liðið vann 2-0.

A-liðið spilaði fyrst og skemmst er frá því að segja að dagurinn var ekki A-liðs stelpnanna, sem voru töluvert frá sínu besta. Þrátt fyrir að vera margar hverjar mjög hæfileikaríkar knattspyrnukonur þá er eins og eitthvert keppnisskap og fórnfýsi vanti þar á bæinn. Þessi leikur A-liðsins gegn GRV er góð sönnun á því að það skiptir ekki máli hversu góð þú ert í fótbolta, ef þú ert ekki tilbúin að leggja þig alla fram og koma löðursveitt og örmagna út af vellinum í leikslok, þá vinnur þú ekki leiki. Einhverjar eru kannski orðnar þreyttar á þessu "tuði" í mér, en mér finnst bara sjálfsagt að gera meiri kröfur til þeirra sem eru búnar að læra meira í fótbolta en aðrar. Í þessu tilviki er þetta reyndar öðruvísi því þetta eru sömu kröfur og ég geri til allra: allar eiga að leggja sig 100% fram, sama í hvaða liði þær eru!
Helst vill ég hrósa Láru, Hörpu Marín og Kristjönu fyrir sinn leik. Harpa er búinn að bæta sig mikið og er orðinn virkilega góður varnarmaður sem les leikinn vel og sendir boltann mjög vel frá sér. Kristjana kom óvænt inn rétt fyrir mót og stóð í markinu hjá A-liðinu í nokkrum leikjum á Pæjumótinu. Í þessum leik gegn GRV stóð hún sig hreint út sagt frábærlega og varði margoft glæsilega og hélt okkur inni í leiknum. Lára var dugleg og tók af skarið þegar aðrir höfðu hægt um sig á vellinum. Lára gerði virkilega sitt besta í leiknum en fékk mjög lítinn stuðning frá restinni af liðinu í sóknaraðgerðunum. Enginn í A-liðinu spilaði neitt illa, en það var augljóst stemningsleysi í liðinu og lítil barátta. Það verður lagað fyrir næsta leik.
Maður leiksins: Lára Rut
Spútnik leiksins: Kristjana


Af B-liðinu er allt aðra sögu að segja og ljóst að A-liðið getur lært mikið af B-liðinu. Þar voru allar mjög einbeittar og baráttuandinn svo sannarlega til staðar. Haukastelpurnar hreinlega völtuðu yfir GRV og voru í sókn nánast allan leikinn. Þrátt fyrir það gekk erfiðlega að skora mörkin, enda voru GRV stelpurnar oft allar inni í, eða við teiginn sinn eins og 6-0 handboltavörn. Að lokum tókst okkur að skora tvö mörk og taka öruggan 2-0 sigur. Það er mikið af sterkum karakterum í B-liðinu sem hætta aldrei og bregðast alltaf rétt við þegar maður hvetur þær og biður um að leggja harðar að sér. Með sama áframhaldi þá er ljóst að nokkrar B-liðs stelpur munu setja pressu á A-liðs stelpurnar með að halda sæti sínu í A-liðinu. Það er eiginlega varla mögulegt að pikka út einhverja eina sem mann leiksins í þessum leik þar sem allar voru að spila vel og voru gríðarlega duglegar.
Maður leiksins: Auður. Átti frábæran leik og hljóp endalaust upp og niður völlinn.
Spútnik leiksins: Soffía. Er búin að bæta sig mjög mikið á bara sl. vikum.


P.S.
Ég bæti við myndum úr leikjunum við þessa bloggfærslu við tækifæri.

1 comment:

Anonymous said...

Hæ Kristján. Við töpuðum 1-3 en ekki 1-5 bara svona að leiðrétta þig en sjáumst

Kveðja, Lára Rut